Hlaðborðið - Uppskriftir
13.2.2008 05:14:37 / hladbordid

Gerbakstur.

 

Paprikulengja

1 ½ dl heitt vatn
1 ½ dl súrmjólk
25 gr þurrger (2 ½ tsk)
2 msk olía
½ tsk sykur
1 tsk salt
1 dl hveitiklíð
5 ½ dl hveiti

Ofan á:
½ rauð paprika
½ græn paprika
½ gul paprika
Rifinn ostur

Takið frá 1 dl af hveiti og geymið á diski til að nota síðar.

Blandið saman vatni og súrmjólk

Blandið öllum þurrefnunum og gerinu líka, saman við mjókurblönduna og hrærið og hnoðið.

Bætið við hveitinu sem tekið var frá eftir þörfum ef deigið reynist of blautt.

Látið deigið hefast í skál og volgu vatnsbaði í eldhúsvaskinum í ca. 15 mínútur.

Sláið deigið niður og hnoðið þar tl það klístrast hvorki við borð né hendur, bætið vð hveiti ef þörf þykir og skiptið deiginu í tvennt.

Búið til tvær sívalar lengjur og fletjið þær síðan út með lófanum.

Penslið lengjurnar með eggjablöndu.

Þvoið paprikurnar og skerið þær niður í lengjur og raðið þeim yfir brauðlengjurnar og stráið rifnum ostinum yfir.

Bakið í 12-15 mínútur við 200°C.

Berið fram með smjöri.

 

Skinkuhorn

 

1. bréf þurrger
2 ½ dl mjólk
100 gr smjörlíki
1 tsk sykur
1 tsk salt
~500 gr hveiti
Sesamfræ

1. Smjörlíkið brætt og mjólkin sett saman við – hafa blönduna um 35°c heita.
2. Hinum efnunum blandað saman við og allt hnoðað saman þar til það er slétt og samfellt.
3. Deiginu skipt í 2 hluta, sem flattir eru út í tvær kringlóttar kökur sem skipt er í 8 jafna þríhyrnda parta.
4. Vefðu hvern þríhyrning þétt saman frá breiðari endanum. Láttu hornin á smurða plötu.
5. Láttu hornin lyfa sér í c.a. 25 mín.
6. Penslaðu hornin með eggi og settu á þau sesamfræ.
7. Bakaðu hornin í miðju ofni við 250°C í 12 - 15 mín.

 

Hvítlaukshorn

750 ml volgt vatn (38°c)
1 poki þurrger
2 tsk salt
1 ½ tsk sykur
4 msk ólífuolía
Brauðhveiti eftir þörf (má nota venjulegt hveiti, en betra að hafa brauðhveiti)
Ca. 1 dós Hvítlaukssmurostur (fer eftir smekk hvað mikið;)
Parmesan, þurrkaður (í dós)
Hvítlaukssalt

Látið hefast í 1 klukkustund.

 

Fletjip út, setjið ostinn á og rúllið upp.

Penslið með olíu, stráið parmesan og hvítlaukssalti yfir.

Bakið í 10-15 mínútur við 200°c.

 

 

Bæjarins bestu snúðar

 

150 gr smjör
5 dl mjólk
50 gr ger (ca 2 pakkar)
1 ½ dl sykur
½ tsk salt
2 vanilludropar
16-17 dl hveiti og heilhveiti til helminga

1. Smjörið brætt í mjólkinni upp að 37°c. Hellt yfir gerið og sykurinn.
2. Hinu bætt út í og hnoðað, skilja samt eftir smá hveiti til að hnoða upp í á eftir.
3. Látið hefast í a.m.k. 40 mínútur. Hnoðið aftur, skiptið í 2 hluta og fletjið út.


100 gr smjör (brætt)
1 ½ dl sykur
2 msk kanill

4. Blandið saman og smyrjið á deigið.
 
5.
Rúllað þétt og skorið niður í bita, ca. 30 hvor rúlla.
6. Látið hefast aftur í ca 40 mínútur.
7. Penslað með eggi ef vill. Bakað við 250 °c í 6-10 mínútur.
8. Mjög vinsælt að dýfa í brætt súkkulaði eða glassúr.

 

Kanilsnúðar með marsipani

 

50 gr pressuger eða 1 pakki þurrger
100-150 gr smjör/smjörlíki
5 dl ylvolg mjólk
½ tsk salt
1 ½ dl sykur
ca. 12-13 dl hveiti

Fylling:
Brætt smjörlíki
Kanilsykur
Marsipan eftir smekk

1. Blandið gerinu saman við ylvolga mjólkina.
2. Blandið þurrefnunum saman í skál, myljið smjörið út í og hellið síðan gerblöndunni saman við. Gott er að hnoða öllu saman í hrærivélarskál eða einfaldlega með höndunum. Látið hefast undir rökum klút í minnst 30-60 mínútur.
3. Takið þá hluta af deiginu og fletjið út á hveitistráða borðplötu eða á plastdúk. Skerið kantana þannig að þeir séu allir jafnir.
4. Penslið yfir deigið og stráið kanil þar yfir. Þekið vel.
5. Myljið marsipan í skál og stráið því yfir kanilinn. Rúllið nú deiginu jafnt upp með báðum höndum og skerið í jafna bita.
6. Setjið hvern bita upp á rönd og þrýstið á með fingrum og látið á smurða ofnplötu. Látið hefast á plötunni í 30 mín.
7. Penslið þá snúðana með þeyttu eggi og bakið við 250°C í 5-8 mín.

Berið snúðana fram ylvolga með kakói, kaffi eða mjólk.

Snúðar með glassúr

 

850 gr hveiti
1 tsk salt
1 ½ dl sykur
1 bréf þurrger
5 dl mjólk
150 gr smjörlíki

Glassúr
Flórsykur
Kakó
Smjörlíki
Heitt vatn

- Blandað saman þar til að það er orðið bragðgott.

1. Öllum þurrefnunum blandað saman í skál.
2. Smjörlíkið brætt og hellt í skálina ásamt mjólkinni. Hnoðað smá og svo látið hefast í ca 30-40 mín.
3. Deiginu skipt í fernt, svo flatt út og smá smjörlíki penslað ofan á
4. Kanilblöndu dreift yfir deigið, rúllað upp og skorið í ca 1-1 ½ cm þykka snúða.
5. Bakið í ca. 15 mínutur við 180-200°c.

 

 

Ólífubrauð

 

25 gr pressuger
2 ½ dl hrein jógúrt
½ tsk salt
2 msk ólífuolía
5-6 dl hveiti
Fylling: 100 gr steinlausar ólífur

1. Myljið gerið í skálina, hellið jógúrtinni saman við og hrærið þar til gerið er uppleyst.
2. Bætið í salti, matarolíu og næstum öllu hveitinu. Hnoðið deigið rösklega. Það á að vera nokkuð þétt í sér. Stráið hveiti yfir og breiðið klút yfir og látið hefast í 30-45 mínútur.
3. Hnoðið upp afganginn af hveitinu, takið frá lítinn hluta deigsins og fletjið hitt út í ferning ca. 20x20 cm, leggið ólífur á mitt deigið og rúllið því svo upp eins og rúllutertu. Setjið á bökunarplötu.
4. Skiptið afgangnum af deiginu í þrennt og fléttið það, setjið það ofan á brauðið eða meðfram því sem skraut. Látið hefast vel.
5. Bakið neðarlega í ofni í ca. 30 mínútur, látið kólna á rist en breiðið ekki yfir það.

Brauðið er best nýtt en geymist 1-2 daga í ísskáp, í frysti 2-3 mánuði.

 

Norskar rúsínubollur

 

150 gr smjörlíki,brætt og kælt
7 dl mjólk,volg
50 gr ger (1 pakki þurrger)
180 gr sykur
2 tsk kardemommudropar
1 kg hveiti (má blanda helm. heilhveiti og helm. hveiti e. smekk)
2-3 dl rúsínur

1. Smjörlíkið er brætt í potti og mjólkinni bætt í, kælt niður í 37°c.
2. Þá er öllu saman blandað saman í skál og hnoðað vel saman. Hnoðið deigið aðeins og setjið í stóra skál. Setkið blautt viskustykki yfir og geymið í ca. 1 klukkustund eða þar til deigið hefur tvöfaldast.
3. Þetta eru ca. 40 bollur. Gott er að nota glas til að bollurnar verði fallegri og jafn stórar. Látið þær á bökunarplötu með bökunarpappír og viskustykki yfir og látið þær standa í smá stund til að hefast aftur.
4. Penslið með eggi og setjið í 200 gráðu heitan ofn, miðjan í ca. 20 mínútur. Má líka pensla með mjólk eða vatni.

Þetta er mjög fljótlegt og gott nesti fyrir börnin í skólann, gott að smyrja með Skinkumyrju og skinku eða eftir smekk. Má frysta.

Saffranbollur

 

150 gr smjör eða smjörlíki
5 dl léttmjólk
1 gr saffran ( má sleppa)
50 gr ger (1 bréf af þurrgeri)
½ dós (125 gr) hrein jógurt
1 ½ dl ljóst síróp (til í brúsum frá Dansukker)
1 egg
½ tsk salt
19-20 dl hveiti

Bræðið smjörið, í potti og bætið mjólkinni út í, hitið að 37°C.

Steytið saffranið með 1 tsk af sykri og setjið út í vökvann.

Myljið gerið og hellið volgum vökvanum yfir, og látið það leysast upp. Ef notað er þurrger blandið því þá saman við hveitið.

Blandið jógurti, sírópi, eggi, salti og hveiti saman við vökvann
og hnoðið saman.

Breiðið blautt stykki eða plastfilmu yfir deigið, ekki hafa alveg
loftþétt. Látið hefast í u.þ.b. 40 mínútur.

Mótið bollur, smyrjið með sundurslegnu eggi. Látið hefast í 30-40 mínútur.

Bakið við 225°C í 10-12 mínútur

 

Skinkuhorn Anastaciu

 

5 ½ - 6 dl hveiti
50 gr smjörlíki
1 tsk salt
1 tsk skykur
1 bréf þurrger
2 dl ylvolgt vatn
Fylling:
150 gr skinka, brytjuð
100 gr smurostur
2 msk graslaukur
- hræra brytjaða skinkuna smurostinn og graslaukinn saman. Eða nota skinkumyrju.

Hrærið gerið út í vatninu.

Myljið smjörlíkið saman við hveitið, bætið salti og sykri saman við og vætið í með gerblöndunni.

Hnoðið deigið út jafnt og gljáandi á borði. Skiptið í tvennt og hnoðið upp í bollur. Fletjið bollurnar út um það bil 25 cm í þvermál.

Serið með kleinujárni eða pizzuskera 8 þríhyrninga. Setjið fyllingu á þríhyrningana (1 tsk nóg á hvert horn) og vefjið upp í horn (byrja á breiða endanum, hann fer inní;).

Leggið á plötu og látið hefast á hlýjum stað í u.þ.b. 30 mínútur. Leggið hreinan klút yfir á meðan.

Smyrjið hornin með eggi og mjólk og stráið e.t.v birkifræjum yfir.

Bakið í miðjum ofni vð 225°c í 8-10 mín.

 

Snúðar með eplum

 

1 lítri mjólk
50 gr ger
2 egg
3 dl sykur
125 gr brætt smjörlíki
Ca. 3 lítrar  hveiti

Fylling:
1 lítri rifinn epli (eða eplamauk)
2 tsk vanillusykur
1 tsk kanill
½ tsk negull

1. Venjulegt hnoðað gerdeig. Látið lyfta sér vel ca. 30 mínútur. 
2. Skiptið í 8 parta og er hver partur flattur út, blöndu af kanil, sykri, vanillusykri og negul stráð yfir, rifnum eplum stráð þar ofan á ( eða notað eplamauk úr krukkum).
3. Rúllið upp og skerið í ca 2 ½ cm stykki. Látið hefast, penslið með eggi og bakið við 200°c í u.þ.b. 10 mínútur.

RSS tengill